Lúsífer – Uppruni hins illa og örlög

 

 Helgisaga  byggð á ritningargreinum og arfsögnum

Áður en nokkuð gerist á jörðunni hefur eitthvað gerst í himnunum sem er fyrirboði þess. Þannig hafði nokkuð gerst áður en maðurinn ákvað að fara sínar eigin leiðir án tillits til vilja Guðs þegar Adam og Eva átu af skilningstré góðs og ills.

Það sem gerðist var að hópur engla gerði uppreisn gegn Guði og það átti sér upphaf í hjarta fegursta engils  himnanna, og má nærri geta að hann hafi verið fagur úr því hann bar af öðrum englum svo fagir sem þeir eru nú.

Hann hét Lúsífer eða Ljósberi og það var af því að hann bar uppi Ljós heimsins sem lýsti upp alla himna. Þetta ljós kom síðar í heiminn og gerðist maður og bjó meðal okkar fullur náðar og sannleika. Það var Drottinn Jesús.

Ljós heimsins ljómaði skært þar sem Ljósberi bar hann á höndum sér og ljómaði fagurri birtu á engla og tignir og völd, serafa og kerúba, hallir himnanna og lendur eilífðar. Sjálfur ljómaði Ljósberi mest allra af þessu ljósi. Til þess að hann skyggði í engu á ljós heimsins þá var hann glær eins og kristall eða demantur og ljóminn speglaðist um hann allan svo erfitt var að sjá hvar Ljós heimsins endaði og Ljósberi byrjaði.

Ljósbera var mjög hrósað af hlutverki sínu og hversu vel hann rækti það. Hann hélt Ljósi heimsins stöðugu öld af öld, tímaskeið af tímaskeiði. – Elífðin er óendanleg svo það dugir enginn venjulegur tímareikningur til að mæla hana svo tímaskeið dugir best til þess, en enginn veit hversu löng þau geta orðið.

Eftir mjög mörg tímaskeið fór hrósið að stíga Ljósbera til höfuðs og hann tók að hugsa með sér að hann hefði í raun mikilvægara hlutverk en nokkur annar engill. Hann væri hæst setti engill himnanna. Honum fór því að finnast að aðrir englar ættu að sýna honum virðingu. Það var svosem næg lotning sem barst að honum en hann var aldrei viss um að neitt af henni væri honum ætlað. Hún væri líklegast öll ætluð Ljósi heimsins.

En það færi nú lítið fyrir Ljósi heimsins ef hann héldi ekki á því, hugsaði hann. Það félli kannski bara niður í myrkrin. – Nei  annars, þá yrðu þau bara björt.

Það væri nú annars gaman að prófa að færa Ljós heimsins úr stað og sjá hvað gerðist. Jú,  Guð hafði vissulega sagt að það ætti að vera nákvæmlega þar sem hann hafði ákveðið svo það lýsti sem best og víðast, en af hverju áttu einhverjir partar alverunnar ekki að njóta ljóss? Hann ákvað að láta á þetta reyna.

Hann lagði af stað með ljósið en ekkert nýtt kom í ljós því Ljós heimsins lýsti á allt sem var skapað og annars staðar var ekkert, bara tóm og því sást ekkert þó ljósið væri borið í átt að því. En það glumdi hins vegar við óp! Englarnir urðu hræddir þegar afstaða Ljóss heimsins breyttist og skuggar birtust skyndilega í himnum. Áður hafði Ljós heimsins lýst þannig að allt var baðað birtu, en þegar Ljósberi færði það komu skuggar. Englarnir höfðu aldrei séð skugga og urðu því skelfingu lostnir þegar þeir teygðu anga sína um klæði þeirra og lendur eilífðar. Því var það að þeir hrópuðu upp yfir sig í angist sinni.

Guð heyrði hróp þeirra og leit til og sá hvað Ljósberi hafði gert og sagði honum að færa Ljós heimsins aftur á sinn stað. Engum engli hafði áður komið annað til hugar en að hlýðnast Guði, en Ljósberi fann að hann naut athyglinnar sem hann hafði fengið svo skyndilega. Guð hafði alltaf horft beint á Ljós heimsins og aldrei tekið eftir honum, eða það hélt hann að minnsta kosti. Nú hvíldi auga hans þó á Ljósbera sjálfum og ekki bara hans heldur augu allra engla á himnum.

Þetta steig Ljósbera meir og meir til höfuðs og hann naut athyglinnar stöðugt meir. Hann hlýddi því Guði ekki strax heldur lét þessa nýju kennd fara um hug sinn. Guð endurtók ekki orð sín. Það hafði hann aldrei þurft að gera og hann beið því aðeins. Satt að segja beið hann mjög lengi því Ljósberi var ekkert að flýta sér.

Nokkrum englum fannst hann kjarkaður að gera ekki vilja Guðs og sumir fóru að dást að honum fyrir þetta. Ekki flýtti það fyrir því að Ljósberi framkvæmdi vilja Guðs. Eiginlega fannst honum hann ljóma meir eftir að hann hafði fært Ljós heimsins úr stað. Það var auðvitað misskilningur en honum fannst það og einhverjum englum líka. Þeir fóru að hrópa hvatningarhróp til hans að færa ljósið ennþá lengra.

Nú var Guði nóg boðið. Það var komin í gang uppreisn á himnum! Líklega var um fjórðungur englanna kominn á band Ljósbera. Það veitti Ljósbera kjark til þess að skjóta á móti Guði ljótum hugsunum. Hvað var Guð eiginlega að frekjast? – Og þar með var hann orðinn Andskoti Guðs, andstæðingur!

Guð gerði langa sögu stutta. Hann tók ljósið úr höndum Ljósbera og blés á hann reiði sinni eins og ísköldum kuldagusti svo hann hrímaði allur og fauk út í ystu myrkur. Hann blés líka á englana sem höfðu stutt hann svo þeir fuku með honum hrímaðir og jökulkaldir eins og hann. Guð getur ekki búið við andstöðu í himni sínum. Það er fráleit hugsun!

Í ystu myrkrum sá ekki lengur til Ljóss heimsins og Ljósberi og englar hans hefðu ekki séð hver annan nema af því að það strindi svolítið á hrímið á þeim af þeirri innri glóð sem ennþá var í þeim. En þeim var svo kalt og þeir voru svo einmana af því að þeir sáu hvorki ásjónu Guðs né birtu Ljóss heimsins lengur. Þeir fóru að reyna að hugga hver annan en þeim var engin huggun að því. Ljós heimsins hafði verið eina gleði þeirra hingað til og það svo mikil gleði að þeir höfðu aldrei hugsað til annars, en nú var það hvergi að sjá lengur. Þeir rötuðu ekki heldur neitt í þessu myrkri og vissu ekki hvar þeir áttu að leita Ljóss heimsins.

Ljósberi heyrði þetta kvart og sagði við þá: En ég er hjá ykkur og ég  er Ljósberinn! Hann gat með engu móti áttað sig á að hann var alls ekki lengur ljósberi. Hann hafði snúið illu að Guði og var því bara Andskoti og þegar hann hélt áfram að klifa á þessu var hann líka orðinn Djöfull, eða lygari því hann bar ekki neitt ljós!

Kvart englanna hélt áfram og í tóminu þar sem þeir voru gufaði fljótlega upp af þeim hrímið og nú sáu þeir ekki lengur hver annan því þeir voru allir glærir eins og gler og í myrkri sér maður ekki gler. Það eina sem mátti því skynja voru kvarthljóðin í þeim og glingur þegar þeir rákust hver utan í annan í myrkrinu.

Andskotinn (Já, við verðum að kalla hann eitthvað annað en Ljósbera núna.) sá að við svo búið mátti ekki lengur sitja svo hann tók til sinna ráða og fór að búa til ljós. Það gat með engu móti tekist því hann var ekki neinn skapari. Hann var bara slóttugur núna. Aðrir hæfileikar hans gátu ekki komið að neinu gagni. Hann bisaði við þetta lengi lengi, að minnsta kosti heilt tímaskeið. Á meðan biðu englar hans volandi og glamrandi.

Að lokum tókst Andskotanum að koma til leiðar bruna og af brunanum bar draugalegan bjarma svo englarnir sáu nú aftur grilla hver í annan, en þeir urðu skelfingu lostnir því þeir voru svo skuggalegir í þessari ljótu og litlu glóð. Það glampaði af hrævarbliki á glervængi þeirra og þeir litu eymdarlega til Andskotans. Það var eins og hann væri úr hrafntinnu, svörtu gleri og vængir hans sem svartir skuggar. Af glóðinni kom mikið sót og settist á þá svo þeir hættu fljótlega að glampa. Þeir urðu eins og skuggar.

Það var ekki aðeins að þeir yrðu sorgleg sjón, já, þeir voru sannarlega skuggaleg sýn að sjá þar sem þeir flögruðu um í myrkrinu. Þeir fóru að láta illa, og það var af því þeim leið djöfullega svo langt burtu frá himnum. Þeri fóru að hreyta ónotum hver í annan og ljúga stöðugt stærri lygum. Mest snerust þær lygar um að Guð væri vondur sem hefði rekið þá burtu frá sér og þeir fóru að búa til margar sögur um það.

Duglegastur við lygarnar var auðvitað Andskotinn sjálfur. Hann varð meistari lyginnar á skömmum tíma. Hann hafði alltaf verið hæfileikastaríkur af þeim öllum og núna líka í lyginni. Og þeir fóru að hrekkja hver annan og þegar þeir meiddust í hrekkjunum sögðu þeir: Árans, árans og fóru af því að kalla hver annan ára. Að lokum mundi enginn þeirra að þeir hefðu eitt sinn verið fagrir englar. Þeir voru bara árar.

Enginn í himnaríki fylgdist með þeim lengur og þar gleymdust þeir með öllu. Þangað til…

Já, Guð hafði farið að láta Ljós heimsins skína hvar sem það sjálft vildi því hann vildi allt það sama og Ljós himsins. Og hvar sem Ljós heimsins skein varð líf. Það var til Sól og Jörð og Máni og líf á Jörðunni. Að lokum urðu til menn. Karl og kona, Adam og Eva.

Þetta fór einhvernveginn ekki fram hjá Andskotanum. Hann öfundaði Ljós heimsins af lífgefandi krafti sínum sem hann átti engan hlut í lengur. Hann ásetti sér því að spilla öllu sem Guð gerði og skemma það allt sem Ljós heimsins kæmi til leiðar.

Hvernig sem hann reyndi gat hann ekki spillt Jörðinni, grösum hennar né dýrum. Þau höfðu ekki augu sem sáu hann né eyru sem heyrðu hann. Það var engin leið að hafa áhrif á þau til ills.

Hann náði hins vegar með tímanum athygli mannsins, Eva fór að leggja við hlustir og hún vakti áhuga Adams og þau fóru smám saman að trúa lygunum í Djöflinum og svo fóru að brjóta gegn vilja Guðs. Þau kusu eitthvað sem var hvorki fagurt, gott né fullkomið. Þau kusu sér að fara eftir löngunum sínum, láta þær stýra sér í stað þess að taka mark á vilja Guðs og láta hann verða svo á jörðu sem á himni.

Það fór fyrir þeim á líka leið og Ljósbera og englum hans. Þau voru rekin burt frá augliti Guðs sem ekki má líta neitt illt. Síðan þá hafa þau orðið að hafa fyrir lífinu og sérhverja stund að taka afstöðu til þess, hvort það sem þau hefðu í huga væru lygar Djöfulsins eða vilji Guðs. Það var erfitt hlutskipti og oft dimmir dagar hjá þeim þegar illar afleiðingar rangs vals þeirra létu sín getið.

Svona var þetta lengi vel að það varð aldrei almennilega bjart í kringum þau, enda þekktu þau oft ekki birtuna frá Ljósi heimsins, voru meinvillt í myrkrunum. Birta þess var dauf eins og það væri óralangt í burtu.

Þá kom þar loks að Ljós heimsins ákvað að stíga niður til mannanna og lýsa upp líf þeirra. Það ákvað að gerast maður. Það varð fyrst lítið barn og himneskt ljós lýsti ský í landi Gyðinganna sem mest höfðu þó notið birtu þess fram að þessu.

Mennirnir tóku þó ekki á móti Ljósi heimsins. Aðeins fáeinir skildu hver það var. Aðrir reyndu að slökkva það og héldu að sér hefði tekist það. Tilraun þeirra hafði hins vegar þá afleiðingu að Ljós heimsins fór út í myrkrin til Andskotans og ára hans og það varð eftirminnileg heimsókn.

Andskotinn og hirð hans voru einmitt að halda hátíð. Þeir höfðu ekki átt lítinn þátt í því hvernig fór með móttöku mannanna á Ljósi heimsins, og þóttust nú hafa tilefni til að fagna.

Skyndilega barst um þá alla gríðarmikið ljós. Þeir voru orðnir myrkrinu vanir svo augu þeirra blinduðust, eina eilífðar þúsöld sáu þeir ekki neitt. Þeir reyndu að þyrla upp myrkrinu eins og þeir best gátu en Myrkrið mátti sín einskis gegn Ljósinu. Andskotinn blés öllum sínum fúlustu og eitruðustu skeytum gegn Ljósi heimsins en það eyddi þeim öllum. Birtan frá Ljósi heimsins var svo skær að sótið á Andskotnum flagnaði af svo glampaði á svarta hrafntinnuna, en það komst ekki lengur inn undir yfirborðið.

Andskotinn var ekki Ljósberi lengur og gat ekki ljómast upp af Ljósi heimsins eins og fyrr. Hins vegar gátu nú allir séð hvernig hann var og það komu í hann sprungur og eins í árana og allir vissu að dagar þeirra voru taldir. Ljósið heimsins gat því leyst fanga áranna sem þeir höfðu náð úr mannheimum og lýst þeim veg til himna.

Andskotinn sást svo falla sem stjarna af himni þar sem Ljós heimsins glampaði af honum tinnusvörtum. Enginn þurfti að óttast vald hans framar eða mátt til þess að fanga sálir mannanna og halda þeim.

Ljós heimsins sneri aftur til mannanna á Jörðunni og þau sem höfðu verið honum trú og varðveitt ljós hans í trúuðu hjarta fengu að sjá hann upprisinn frá myrkrunum.

Eftir fjörtíu daga steig hann upp til  himna þar sem hann átti heima. Hlýr andi hans leikur þó um alla mannheima og kemur öllu góðu til leiðar með mönnunum. Minning þeirra um veru hans á Jörðunni, ylur kærleika hans og von endurfunda við hann í himnunum voru þeim helgir dómar.

Ritningar um Lúsífer.

Lúsífer

var smurður Kerúbi (og hafði með sér þriðjung engla í fallinu ???)

Esk 28-11- Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: -12- Mannsson, hef upp harmljóð yfir konunginum í Týrus og seg við hann: Svo segir Drottinn Guð: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð! -13- Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum: karneól, tópas, jaspis, krýsolít, sjóam, onýx, safír, karbunkul, smaragð, og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til. -14- Ég hafði skipað þig verndar-kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina. -15- Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér. -16- Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum. -17- Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig. -18- Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverslun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína. Þá lét ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra, er sáu þig. -19- Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn.

Andstæðingur Guðs

Job 1:6-12

-6- Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. -7- Mælti þá Drottinn til Satans: Hvaðan kemur þú? Satan svaraði Drottni og sagði: Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana. -8- Og Drottinn mælti til Satans: Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. -9- Og Satan svaraði Drottni og sagði: Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? -10- Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. -11- En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið. -12- Þá mælti Drottinn til Satans: Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína. Gekk Satan þá burt frá augliti Drottins.
Efe 6:12

Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.

1Pét 5:8

Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.

Morgunstjarnan 

Athuga ber að Morgunstjarnan getur bæði verið Lúsífer og Kristur.

Jesaja 14

Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna! Hversu ert þú að velli lagður, undirokari þjóðanna! -13- Þú, sem sagðir í hjarta þínu: Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri. -14- Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum, gjörast líkur Hinum hæsta! -15- Já, til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar.

 

2Pét 1:19

Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.

 

Opb 22:16

Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan.